Gjörningur við Þingsetningu

Hér má sjá myndir frá einum fyrsta eiginlega gjörningi Breytanda á Íslandi. Þetta var við þingsetningu Alþingis í Janúar 2008, og vildum við taka á móti þingmönnum með jákvæðum gjörningi sem minnti á afleiðingar hlýnunar jarðar og ábyrgð Íslendinga á þeim. Segja má að við höfum verið á undan samtímanum, því við þingsetninguna ári seinna söfnuðust þúsundir á Austurvöll að taka á móti Alþingismönnunum, reyndar með annað í huga.

Við afhentum þingmönnunum áskorun undir titlinum “Ísland í fararbroddi”. Þar spiluðum við á þá ríkjandi ímynd landsins að Ísland væri á einhvern hátt á fararbroddi. Landið birtist oft ofarlega á listum um bestu lífsgæðin, minnstu spillinguna og svo framvegis. En á sama tíma var landið ofarlega á lista í útblástri gróðurhúsalofttegunda á mann, sem og þar að auki með heimild til að auka útblástur sinn um 10% frá 1990 skv. Kyoto bókuninni, á meðan aðrar vestrænar þjóðir þurftu að draga úr. Við vildum sjá íslendinga í fararbroddi í umhverfismálum rétt eins og öðru, því hér væru allar forsendur til þess. Sjálfbær orka og góðar grunnstoðir samfélagsins.

Við lærðum margt af þessum gjörningi sem nýttist okkur í framtíðinni. Til dæmis að ekki þýðir mikið að gera stuttermaboli fyrir gjörning sem mun fara fram úti í Janúar. En einnig að stundum kemur sá tímapunktur að maður þarf að hætta að hangsa og byrja að framkvæma, og að maður þarf að forgangsraða þegar svona atburðir eru skipulagðir.