Hvað getur þú gert ?

Hugsum á heimsvísu en aðhöfumst heima
Changemaker leggur áherslu á það að við getum breytt heiminum. Venjulegt fólk eins og ég og þú, hér og nú. Til þess að vinna gegn þeim áhrifum sem við höfum á fátæk ríki þurfum við að bera kennsl á hvernig við erum þátttakendur í kerfi sem er óréttlátt og hvað við getum gert til að gera það réttlátara. Við þurfum sem sagt annars vegar upplýsingar og hins vegar aðgerðir. Án réttra upplýsinga missa aðgerðirnar marks, en án aðgerða eru upplýsingar gagnslausar. Lykillinn er að hugsa á heimsvísu en aðhafast heima fyrir.

Því miður er margt sem við í iðnríkjunum erum að gera til að viðhalda þessu ástandi. En sem betur fer höfum við möguleika á að hafa áhrif á hvernig málin þróast. Það er fólk sem stjórnar heiminum þannig að það er fólk eins og við sem getur breytt honum!

Hvað getum við gert?

*Vertu með í Changemaker! Changemaker er leið fyrir ungt fólk til að hafa áhrif út á við. Láttu umheiminn vita að ungu fólki er ekki sama!

*Fylgstu með Changemaker! Lestu þér til, og taktu þátt í undirskriftasöfnunum þegar þú ert sammála skilaboðunum

*Hugsum tvisvar áður en við notum bílinn, notum hjól, almenningssamgöngur og göngum stuttar vegalengdir.

*Verslum meðviðað. Veljum Fairtrade vottaðar vörur þegar það er hægt. Veljum innlenda framleiðslu frekar en innflutta vöru, það hlífir loftslaginu.

*Gefum óhlutbundnar gjafir frekar en að kaupa eitthvað dót sem fólk á aldrei eftir að nota. Hægt er að fá gjafabréf fyrir allt frá hænu að brunni í Afríku á www.gjofsemgefur.is sem tryggt er að kemst í góðar þarfir.