Óréttmætar skuldir

Ein af megináherslum Changemaker eru skuldir. Óréttlæti heimsins sést nefninlega einna sterkast þegar horft er á óréttlætið á bak við skuldir þróunarlandanna.

Skuldabyrði þróunarlandanna er svo mikil að það fara meiri peningar í það að borga niður skuldir en sem nemur heildarfjárhæðinni sem þau fá í þróunaraðstoð. Þessi lönd nota meiri peninga til þess að borga skuldir en notað er til að byggja upp heilsugæslu og menntun.

Skuldir snúast samt sem áður ekki fyrst og fremst um peninga. Lánveitendur, m.a. Alþjóðabankinn og Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn, geta í krafti lánanna haft mikil áhrif á lánþegana, hvað þeir þurfi að gera til að fá peningana. Skuldir eru verkfæri sem gerir ríkum kleift að setja fátækum þjóðum skilyrði. Changemaker vill meina að þetta sé ástæðan fyrir því að skuldakrísan leysist ekki: Skuldir ganga út á völd en ekki peninga.

Á Íslandi hefur ekki verið unnið mikið með þetta málefni, en í Noregi hefur Changemaker náð miklum árangri, og m.a. fengið þróunarmálaráðherra til að fella niður töluvert af skuldum. Einnig hefur Changemaker kallað eftir því að ábyrgð lána sé færð frá lánþega yfir á lánveitendur, á skuldum sem má kalla ólögmætar. Það þýðir að þegar vestræn ríki lána óstöðugum einræðisstjórnum í þróunarlöndum peninga, beri þau sjálf ábyrgð á láninu. Það tryggir að þjóðin í einræðisríkinu verði ekki gerð ábyrg fyrir skuld á peningum sem líklega voru notaðir til að kúga hana. Þetta getur auðveldað fátækum þjóðum að segja að sumar skuldir viðurkenni þau ekki og neita að borga.

Ef skuldir þróunarlanda eru felldar niður, munu fátæk lönd geta notað miklu meiri pening í heilsugæslu, menntun og fæði en þau gera í dag. Það er óréttlátt að fátækt fólk í dag er að borga skuldir af lánum sem nýttust þeim aldrei. Niðurfelling skulda er þess vegna stórt og mikilvægt skref í áttina að breyta heiminum í réttlátari stað!