Friður

Stríð bitna alltaf mest á þeim veikburða og saklausu í heiminum. Allt frá dögum Rómarveldis til stríðsins í Írak getum við séð hvað almenningur hefur mátt þola vegna styrjalda. Það er á köflum eins og stríð sé og muni alltaf vera hluti af mannkyninu. Changemaker vill ekki trúa því að það sé satt. Við viljum meina að það sé bæði nauðsynlegt og mögulegt að skapa frið. Við getum byrjað með því að segja nei við stríði.

Friður er frekar nýlegt umræðuefni hjá Changemaker. Við höfum nú samt unnið á móti sprengingunum í Afganistan og á móti stríðinu í Írak. Árið 2004 var herferð í Noregi sem gekk út á það að fá þingið til þess að taka afstöðu gegn Bush-kenningunni um fyrirbyggjandi árásir á óvinaríki (e. The Bush Doctrine). Af hverju? Bush – kenningin lækkar hjá okkur þröskuldinn til að nota stríð sem valdatæki. Það gerir heiminn hættulegri og óréttlátari. Að nota fyrirbyggjandi árásir er eins og að ráðast á einhvern af því að maður heldur að maður sé í hættu: „skjóttu fyrst, spurðu svo“. Þessar aðferðir eru í andstöðu við stofnsáttmála Sameinuðu Þjóðanna. SÞ eru eina stofnunin í heiminum í dag þar sem allar þjóðir heims geta látið í sér heyra og eru vísir að alþjóðlegu lýðræði. Ef allar þjóðir líta framhjá sáttmála SÞ eins og Bandaríkjamenn gerðu þegar þeir réðust inn í Írak, munum við lenda í þeim aðstæðum að þeir valdamestu fái að ráða öllu. Það er hægt að líkja þessu við það t.d. að allir ólátabelgirnir í skólanum fengju að stríða hinum krökkunum án þess að kennarar og nemendur stoppuðu þá.

Gandhi sagði eitt sinn að það væri engin leið til friðar, friður væri eina leiðin. Changemaker eru ekki eiginleg friðarsamtök en við trúum því að svo lengi sem hægt er, eigi að beita friðsamlegum aðferðum. En þannig virðast hlutirnir ekki virka í dag. Þröskuldurinn okkar fyrir því hvenær megi hefja stríð sem þvingunaraðferð er of lágur. Það bitnar á þeim saklausu. Changemaker ætlar að vera með í að breyta þessu.