Saga Changemaker

Árið 1992 varð til hópur að frumkvæði hjálparstarfs kirkjunnar í Noregi, sem hvatti ungt fólk til að taka afstöðu í alþjóðamálum. Fljótlega ákváðu 8 félagar að hjóla frá Nordkapp, nyrsta odda Noregs og alla leið til Góðrarvonarhöfða sem er syðsti höfði Suður-Afríku. Tilgangur „Cape to cape ‘93“ eins og hópurinn kallaði sig var að safna peningum með því að vekja athygli á því að óréttlæti heimsins væri ekki lengra frá okkur en hægt væri að komast í einni hjólaferð.

Eftir þetta fór hópurinn í ferð um Noreg til að kynna verkefnið og til að fá fleiri í lið með sér í undir slagorðinu „Auðvitað getum við breytt heiminum“. Þetta gekk vonum framar og hópurinn stækkaði svo um munaði. Í kjölfarið var haldin ráðstefna um grunnorsakir óréttlætis í heiminum. Upp frá þessu varð Changemaker meira en peningasöfnun. Changemaker var orðið að hreyfingu. Í byrjun snerist starfsemi Changemaker einna helst um neytendamál, sanngjörn viðskipti og slíkt og einnig um skuldir þróunarlanda. Árið 1997 tók svo fyrsta lýðræðislega kosna stjórn hreyfingarinnar við og árið 1999 var farið að móta fyrir því fyrirkomulagi sem er á Changemaker í dag. Nú eru um 2000 meðlimir í Changemaker í Noregi bæði sjálfstæðir og í staðarhópum um allt landið. Árið 2004 hóf Changemaker starfsemi sína í Finnlandi, og hefur nú starfandi hópa vítt og breitt um landið með samtals um 700 meðlimi.

Breytendur á Íslandi byrjuðu að hittast haustið 2005. Fyrsti veturinn fór aðallega í fræðslu og undirbúning fyir Indlandsferð. Haustið 2006 var ákveðið að við myndum stofna systursamtök Changemaker. Haldnir voru nokkrir fjáröflunarviðburðir til styrktar Hjálparstarfi kirkjunnar og fleira í þeim dúr. Nokkrir úr gamla hópnum létu verða af Indlandsferðinni haustið 2008, og eftir það hefur Changemaker eflst. Við höfum verið með öflugar og skemmtilegar herferðir um hlýnun jarðar og sanngjörn viðskipti, ásamt því að taka þátt i fræðslu og vera í samstarfi við aðra æskulýðshópa.

Hægt og örugglega höfum við þróast í það sem Changemaker er í dag! Changemaker er samt langt frá því að vera fullmótað. Þróunin og vöxturinn mun halda áfram þar til að við upplifum þann dag þegar heimurinn er orðinn réttlátur. Það stendur nefninlega í stefnuskrá okkar:

„Changemaker má ekki leggja niður störf fyrr en hlutskipti allra er orðið
sanngjarnt.“