Herferðir

Changemaker á Íslandi starfar þannig að á hverju ári velur hreyfingin sér einhvern vinkil á eitt af baráttumálum hreyfingarinnar til að gera að aðal málefni sínu það árið. Í kjölfarið er sett upp herferð sem meðlimir hreyfingarinnar skipuleggja. Herferðin þarf að hafa skýr markmið, og skýran viðtakanda sem getur breytt því sem við erum að berjast fyrir. Aðferðirnar sem hreyfingin notar til að koma skilaboðum sínum á framfæri eiga að vera skemmtilegar, skýrar og jákvæðar.

Hlýnun jarðar er mannréttindamál
Árið 2009 setti Changemaker á Íslandi upp herferð sem við kölluðum „Hlýnun Jarðar er Mannréttindamál“. Við sögðum:

„Sannað þykir að útblástur gróðurhúsalofttegunda er valdur hlýnandi veðurfars jarðar. Hlýnandi veðurfari fylgja ýmsar náttúruhamfarir. Sem dæmi má nefna að eyðimerkursvæði jarðarinnar stækka, sjávaryfirborð hækkar, auk þess sem öfgar í veðurfari verða sífellt meiri. Þetta veldur því að stór landsvæði verða óbyggileg, á hverjum degi þarf fjöldi fólks um allan heim að flýja heimili sín, því þar er ekki lengur lífvænlegt.

Fólk sem lendir í þessari stöðu hefur engin skilgreind réttindi hér á landi né annarsstaðar, eins og flóttafólki vegna stríðs eða pólítískra ofsókna eru tryggð. Háskóli Sameinuðu þjóðanna hefur áætlað að flóttamenn vegna hlýnunar jarðar séu um 24 milljónir í dag en að sú tala verði komin upp í 50 milljónir í lok árs 2010.“

Þetta finnst okkur ekki sanngjarnt. Fátækt fólk neyðist til að yfirgefa heimili sín vegna mengunar sem aðallega er til komin vegna iðnaðar vestrænna ríkja, þar á meðal Íslands. Við söfnuðum undirskriftum þar sem við kröfðumst:

– Að í ljósi ábyrgðar Íslendinga á útblæstri gróðurhúsalofttegunda skilgreini stjórnvöld stöðu flóttamanna undan hlýnun jarðar og viðbrögð Íslands við þeim sem kunna að leita sér hælis hér vegna hennar.
– Að Íslendingar taki sér stöðu meðal leiðandi þjóða í loftslagsmálum á loftslagsráðstefnunni í Kaupmannahöfn í desember 2009“

Fjör í barnasundlaug á Austurvelli

Það sem við gerðum til að vekja athygli á málinu var að setja upp skemmtilega gjörninga og viðburði, t.d. þegar við settum upp í barnasundlaug á Austurvelli til að sýna hvernig heimili í Bangladesh gæti litið út – það væri á floti. Við töluðum við fólk, kynntum fyrir því málefnið og buðum því að skrifa undir kröfur okkar. Undirskriftunum söfnuðum við á íspinnaprik, sem táknuðu allan ísinn í heiminum sem er að bráðna. Í herferðinni söfnuðust um 800 undirskriftir. Úr íspinnaprikunum byggðum við heljarinnar fellibyl sem er táknrænn fyrir vandann sem að jörðinni steðjar ef ekki verður brugðist við, og afhentum við umhverfisráðherra hann á Norræna loftslagsdeginum 11. nóvember 2009.

Íslensk stjórnvöld hafa nú tekið upp nýja og ábyrga stefnu í loftslagsmálum og höfðu hana að leiðarljósi á Loftslagsráðstefnunni í Kaupmannahöfn. Þó auðvitað sé langt í land að sigrast verði á loftslagsvandanum eru Breytendur stoltar að hafa lagt sitt á vogaskálarnar í þágu málefnisins.

Sanngjörn viðskipti – en ekki hvað?
Árið 2010 helguðu Breytendur baráttunni um að fá fleiri Fairtrade vottaðar vörur í búðir. Fyrsta skref í átt til þess var að almenningur yrði meðvitaðri um hugtakið og nauðsyn þess, til að meiri eftirspurn eftir vottuðum vörum myndi skapast.

Herferðin stendur enn yfir og hefur hreyfingin sett upp viðburði, m.a. á 17. júní, menningarnótt, og á Landsmóti ÆSKÞ á Akureyri. Þar höfum við m.a. dreift við bæklingum, boðið fólki upp á Fairtrade kaffi, og sagt frá hugtakinu. Í stað þess að safna undirskriftum buðum við fólki að taka mynd af sér hjá Fairtrade merkinu. Þær myndir verða notaðar í áskorun á verslanir um að auka úrval af Fairtrade vörum á Íslandi. Auk þess hyggjast Breytendur veita þeirri verslun sem duglegust þykir hafa verið að vinna Fairtrade vörum brautargengi sérstök hvatningarverðlaun. Fylgist með fréttum af þróun mála.