Hlýnun jarðar

Loftslagsbreytingar af mannavöldum eru mannréttindamál ekki síður en umhverfismál. Þetta er útgangspunktur Changemaker varðandi loftslagsmál. Samkvæmt tölum frá Sameinuðu þjóðunum verður losun koltvísýrings að minnka um 60-80 % til þess að hægt sé að koma í veg fyrir alvarlegar loftslagsbreytingar á komandi árum. Kyoto-bókunin er eini alþjóðlegi samningurinn um losun gróðurhúsalofttegunda sem gerður hefur verið en samkvæmt honum skuldbinda iðnríki sig til þess að halda útstreymi gróðurhúsalofttegunda innan marka sem eru 5% lægri en þau voru árið 1990. Það eru ríku iðnríkin sem bera ábyrgð á meirihluta útstreymis gróðurhúsalofttegunda en afleiðingarnar bitna langmest á fátæku þjóðunum.

Við í hinum vestrænu iðnríkjum höfum byggt upp velferðarkerfi okkar á iðnaði sem mengar. Þessi sama mengun sem við græddum á er nú að koma í veg fyrir það að þjóðirnar í heitari löndum í suðri geti komið sér upp sambærilegu velferðarkerfi. Þetta finnst Changemaker ekki sanngjarnt. Þegar nágranni skemmir lóð fjölskyldunnar við hliðina á er hann skaðabótaskyldur. Í raun teljum við iðnríkin skulda þróunarríkjunum skaðabætur fyrir þann skaða sem hlýnun jarðar hefur valdið hjá þeim. Hlýnun jarðar veldur því að eyðimerkur stækka og land sem bændur og hirðingjar lifa á verður of þurrt og skrælnar, auk þess hækkar yfirborð sjávar og aðgangur að drykkjarvatni minnkar. Minni aðgangur að vatni þýðir einnig að meiri hætta er á útbreiðslu sjúkdóma. Þessi neikvæðu áhrif eru mest hjá þjóðum sem eru fátækar fyrir og hafa ekki sömu úrræði og við til þess að bregðast við þessari vá. Eina úrræðið sem mikið af þessu fólki hefur er að flytja burt af heimahögunum eða svelta ella. Það má því í raun tala um flóttamenn undan hlýnun jarðar.

Stefna Changemaker er að hvert og eitt okkar verður að gera það sem við getum til þess að þess að draga úr útblæstri gróðurhúsalofttegunda og standa saman um að þrýsta á stjórnvöld að gera slíkt hið sama.

Við Íslendingar erum smám saman að gera okkur grein fyrir að við erum ekki jafn umhverfisvæn þjóð og við höfum viljað halda en útlitið er jafnvel ennþá svartara en við gerum okkur grein fyrir. Við erum í þriðja sæti yfir sorpmagn á mann á eftir Bandaríkjunum og Ástralíu samkvæmt OECD.* Við erum í 40. sæti þjóða heims í útblástri gróðurhúsalofttegunda á mann** og við erum sú þjóð sem hefur stærsta undanþágu frá Kyoto-bókuninni til að auka koltvíoxíð útblástur, eða heimild til 10% aukningar.***

Þessu þarf að breyta.

Heimildir:

*
http://www.nationmaster.com/graph/env_pol_mun_was_per_cap-pollution-muni…
Heimild: Organization for Economic Cooperation and Development, Paris, France, OECD Environmental Data Compendium

**http://en.wikipedia.org/wiki/List_of_countries_by_greenhouse_gas_emissio…
Heimild: World Resources Institute[1] (WRI) from a variety of sources, including CDIAC and the US Environmental Protection Agency. Bunker-fuel emissions are not included.

*** http://en.wikipedia.org/wiki/Kyoto_Accord#Details_of_the_agreement