Sanngjörn viðskipti

Markmið Fair Trade er að framleiðendur í þriðja heiminum fái sanngjarnt verð fyrir þær vörur sem við kaupum í búðunum hérna heima. Eins og staðan er í heiminum í dag fá fæstir bændur í þriðja heiminum nóg borgað fyrir þá vinnu sem þeir leggja í framleiðslu vöru sinnar en mestur hluti söluvirðisins fer til ótal milliliða, t.d. til þeirra sem flytja vöruna og selja.

Fair Trade samtökin vinna gegn þessu með því að fækka milliliðum svo að þeir sem komi að framleiðslu vörunnar fái sanngjörn laun fyrir vinnu sína.

Til þess að fá Fair Trade vottun á vörur sínar vinna bændurnir saman, stofna verkalýðsfélag og hjálpast að til þess að varan uppfylli kröfurnar. Allir bændurnir fá borgað fyrir sína vinnu auk þess sem hluti peningsins rennur í sameiginlegan sjóð verkalýðsfélagsins. Meðlimir þess kjósa síðan á lýðræðislegan hátt um það hvering sjóðnum en varið en sem dæmi má nýta sjóðinn við framleiðslunna, við kaup á bílum til flutninga eða til að koma upp heilsugæslu eða skóla.

Þannig er Fair Trade-vörumerking vottun fyrir sanngjörn viðskipti með mannúð og hagnað allra að leiðarljósi.

Með því að velja Fair Trade...

…stuðlar þú að því að framleiðendur og bændur fái sanngjörn laun fyrir vörur sínar og vinnu

…hjálpar þú til við að draga úr barnaþrælkun

…stuðlar þú að því að lífræn ræktun nái frekari útbreiðslu

…styrkir þú réttinn til félagsfrelsis og stuðlar að lýðræðisþróun

…dregur þú úr misrétti heimsins

Það er því um að gera að borga nokkrar krónur aukalega fyrir Fair Trade vottaðar vörur, þær eru einfaldlega sanngjarnari á bragðið!

Fairtrade vörur á Íslandi

Úrval af Fairtrade vörum á Íslandi er því miður ekki enn samkeppnishæft við önnur lönd en meðlimir Breytanda stormuðu í verslanir og gerðu úttekt. Finna má Fairtrade vörur í öllum helstu matvöruverslunum og er árangursríkast að leita þeirra á lífræna ganginum. Einnig má finna  Fairtrade vörum í nokkrum fataverslunum og svo leynast þær líka á kaffihúsum og í leikfangabúðum. Vörutalning var framkvæmd síðasta vor og hér má sjá afraksturinn.

Matvöruverslanir:

 • Hagkaup (19 vörur – mikið úrval af tei, hrásykur, hrískökur KitKat, ís o.fl.)
 • Fjarðarkaup (19 vörur – kaffi, te, hrásykur, orkustykki o.fl.)
 • Heilsuhúsið (14 vörur – te, mango chutney, orkustykki o.fl.)
 • Krónan (13 vörur – ávaxtasafi, kaffi, te, hunang, kakó, brjóstsykur o.fl.)
 • Nóatún (12 vörur – hrískökur, hunang, hrásykur, kaffi, súkkulaði o.fl.)
 • 10-11 (10 vörur – mikið úrval af tei, hrásykur, KitKat og hrískökur)
 • Maður lifandi (10 vörur – te, mango chutney, hrískökur og orkustykki)
 • Nettó (8 vörur – te, hrískökur, KitKat og hunang)
 • Bónus (7 vörur – te og hrásykur)
 • Samkaup (6 vörur – te, hrásykur og hrískökur)
 • Kostur (3 vörur – kaffi)
 • Kvosin (1 vara – hrásykur)

Fataverslanir

 • Topshop (10 vörur – bolir og leggings)
 • Debenhams (8 vörur – karlmannsföt)

Annað

 • Söstrene grene (te, hrískökur og hrísgrjón)
 • Rúmfatalagerinn (ein tegund af viskastykkjum)
 • Náttúran.is (þar má finna Fair Trade búð til hægri á forsíðunni)
 • Lítil í upphafi (leikfangabúð við Skólavörðustíg)
 • Barnabúðin Garðastræti 17
 • Gónhóll Eyrarbakka
 • Kolors.is (handunnar töskur og veski)
 • Te og kaffi
 • Litla kistan (netverslun með barnavörur)

Við hvetjum alla til að hafa samband við okkur með því að senda póst á changemaker(hjá)changemaker.is ef þið komið auga á Fairtrade vörur í verslunum sem við höfum ekki tilgreint hér. Rétt er að benda á að í vörutalningunni var lögð áhersla á vörur sem bera Fairtrade merkið en ekki vörur með sambærilega vottun, s.s. Hand in Hand eða UTZ.