Breytendur fyrir umhverfisnefnd Alþingis.

Skrifað þann 7 Apr, 2009

Breytendur fyrir umhverfisnefnd Alþingis.

Breytendur fengu í gær, mánudaginn 6. apríl, tækifæri til að lýsa skoðunum sýnum á tillögu til þingsályktunar um hagsmuni Íslands í loftslagsmálum fyrir umhverfisnefnd Alþingis. Nefndarmenn höfðu séð póst sem Breytendur sendu á alla Alþingismenn, og buðu okkur að koma fyrir nefndina og lýsa sjónarmiðum hreyfingarinnar nánar. Sendum við tvo fulltrúa, þá Þorstein og Árna á fundinn.

Tillagan felur í stuttu máli í sér að Alþingi beini því til samninganefndar í loftslagsmálum að halda á lofti þeirri kröfu að Ísland fái áframhaldandi sérmeðferð í þeirri samningagerð. Eins og kunnugt er höfum við íslendingar mesta undanþágu allra þjóða til aukningar útblásturs CO2, og felur þingsályktunartillagan nefndinni að tryggja að svo verði áfram.

Breytendur lýstu áhyggjum sínum á fundinum í samræmi við ályktun sem meðlimir settu saman og sendu til fjölmiðla og Alþingismanna fyrr í mánuðinum. Hlýnun jarðar er að okkar mati mannréttindamál. Fyrst að hagsmunir Íslands felast í því að auka útblástur gróðurhúsalofttegunda, þá hlýtur Alþingi Íslendinga einnig að vilja að álykta um þær afleiðingar sem þessi útblástur hefur í för með sér, og ábyrgð Íslendinga á þeim.

Við fögnum annars þessu tækifæri sem við fengum til að tjá skoðun okkar fyrir nefndina, og þökkum nefndarmeðlimum fyrir að taka á móti okkur og stuðla með því að taka við sjónarmiðum almennings að opnu og gagnvirku lýðræði.

Ályktun Breytanda má sjá hér

Þingsályktunartillöguna má lesa á vef Alþingis

Deila þessu

Segðu þína skoðun