Gullnu tækifærin!

Skrifað þann 14 Apr, 2014

Sigmundur Davíð, forsætisráðherra Íslands sagði í viðtali við Ríkisútvarpið á dögunum að loftslagsbreytingar sköpuðu tækifæri fyrir Íslendinga. HÁRRÉTT!

Við íslendingar eru eyjaskeggjar. Með hækkun sjávar standa eyjaskeggjar hinu megin á hnettinum frammi fyrir því að heimkynni þeirra eru að sökkva. Íslendingar hafa því tækifæri til að bjóða þessa flóttamenn undan hlýnun jarðar velkomna á eyju sem er betur sett landfræðilega gagnvart hlýnun jarðar. Við gætum þannig komist í kynni við gífurlega fjölbreyttan mannauð og þekkingu á lifnaðarháttum á eyjum um allann heim. Gífurleg tækifæri felast í því að sameina Eyjaskeggja frá tveimur mjög ólíkum heimsálfum í einu samfélagi.

Íslendingar standa einnig frammi fyrir öðru gullnu tækifæri. Við höfum alla burði til að verða umhverfisverndarparadís sem að leggur áherslu á grænan og sjálfbæran iðnað. Ísland er nú þegar þekkt á alþjóðavísu sem umhverfisvæn eyja þar sem að borin er virðin fyrir óspilltri náttúru og farið er varlega að viðkvæmu vistkerfi landsins. En betur má ef duga skal. Íslendingar gætu gert náttúruvernd að atvinnuveg og útflutningsvöru, enda er hér stórt og öflugt háskólasamfélag sem að hefur mikla kunnáttu á því að framleiða rafmagn á umhverfisvænan hátt, hvernig á að takast á við jarðrof og græða upp eyðimerkur (eins og sjá má á Mýrdalssandi þar sem jarfvegsbinding hefur minnkað sandfok á milli Víkur og Kirkjubæjarklausturs til muna) svo dæmi séu nefnd.

Eitt stærsta tækifærið sem að loftslagsbreytingar færa Íslendingum tengist drekasvæðinu og fyrirhugaðri olíuvinnslu. Íslendingar hafa tækifæri til að sýna í verki að við tökum lofslagsbreytingar alvarlega með því að láta olíuna liggja. Sá gjörningur myndi vekja gríðarlega athygli á Íslandi sem umhverfisperlu, ferðamenn myndu glaðir punga út stórum upphæðum til að komast inní þjóðgarðana okkar, umhverfisvísindi á Íslandi fengju aukna athygli og íslenskar landbúnaðarvörur ræktaðar á sjálfbærann hátt væru eftirsóknarverðari. Ósnerta náttúran okkar sem við notum nú þegar til að mala gull myndi skila okkur margfalt meiri hagnaði til langs tíma en olívinnsla myndi gera. Allt þetta á meðan að við erum að standa vörð um náttúruna okkar svo við getum skilað henni til komandi kynslóða í betra ástandi en forfeður okkar skiluðu henni til okkar. Fyrir hönd Breytanda skora ég á forsetisráðherra að grípa tækifærið og bjóða flóttamenn undan hlýnun jarðar velkomna til Íslands og láta af áformum um olíuvinnslu á drekasvæðinu. Grípum gæsina meðan hún gefst.

Fyrir hönd Breytanda
Ólöf Rún Benediktsdóttir

Segðu þína skoðun