Alþjóðafundurinn í Kenía

Skrifað þann 11 Nov, 2013

Alþjóðafundurinn í Kenía

Ólöf Rún Benediktsdóttir er nýkomin heim úr heimsókn sinni til Kenía, en þar sem hún sótti hin árlega Alþjóðafund Changemaker International. Í ár var fundurinn haldinn hjá systurhreyfingu Breytanda, KYCN (Kenyan Youth Climate Network), og kynntist Ólöf einnig starfsemi þessa hóps í Kenía. Hér fylgir ferðasaga hennar og yfirlit á fundarályktunum Changemaker International.

Það fyrsta sem greip athygli mína þegar ég steig út úr flugvélinni var sólin. Hún er svo sterk að það er eins og hún vilji skína í gegnum mann. Ef ég var úti um hádegisbil varð ég að passa mig að vera ekki með berann hnakkann því að sólin virtist skína um það bil þrjá centimetra inní hauskúpuna og olli sólsting og sólbruna í hársverði.
Changemaker í Kenía gengur undir nafninu Kenya Youth Climate Network eða KYCN. KYCN er tengslanet smærri samtaka sem koma saman undir merkjum hreyfingarinnar til að vinna í umhverfismálum. Okkur var boðið að taka þátt í ráðstefnu sem KYCN stóð fyrir í Embu dagana áður en fundurinn hófst sem sneri að umhverfismálum og virkjun ungmenna. Um fimmtíu manns tóku þátt í ráðstefnunni og á þriðja degi fór allur hópurinn í vettvangsferð í gróðurhús og moltugerð sem hvoru tveggja hafði verið komið á laggirnar af hópi ungmenna.

Gróðurhúsið var aðallega notað til að rækta tómata og sögðu ungmennin okkur frá því hvernig þau höfðu fengið afnot af landskika sem tilheyrði gróðurrannsóknarstöð í bænum. Þeir létu efnagreina jarðveginn til að komast að því hvaða plöntur væri hagkvæmast að rækta þarna og hvort að það væru nokkuð skordýr eða bakteríur í jarðveginum sem gerði landbúnað ómögulegann. Eftir að efnagreiningin kom til baka gátu þeir tekið lán fyrir gróðurhúsinu, en gróðurhús í Kenía gegna þeim tilgangi að halda rakanum inni, skordýrum og bakteríum úti og skýla plöntunum fyrir sólinni.

Moltunni hafði verið komið á legg af nokkrum ungum mönnum sem höfðu áhyggjur af því hversu lítil endurvinnsla er í Embu. Þeir hófu því að safna lífrænum úrgangi og náðu að safna saman gífurlegu magni á einni viku. Úrganginn nota þeir síðan til þess að búa til mold sem þeir selja til að fjármagna starfsemina. Með því að vinna með moltu og ræktun eru KYCN í raun að takast við afleiðingar hlýnunar jarðar. Það er mikilvægt að endurheimta ræktarland á þurrari svæðum til að jafna út hluta af því gífurlega magni af CO2 sem er í andrúmsloftinu.

Alþjóðafundurinn

Að ráðstefnunni lokinni ferðaðist lítill hópur til Yatta þar sem Alþjóðafundurinn var haldinn. Fundurinn gekk eins og í sögu og náðist að afgreiða stór og mikil mál á stuttum tíma.

Norðmenn lögðu til, eins og þeir hafa gert áður, að Changemaker hreyfingarnar myndu taka að sér að verða ungliðastarf ACT-Alliance þar sem að nánast allar hreyfingarnar hafa nú þegar einhverja tengingu við ACT. Það gæti nýst Changemaker á þann hátt að það yrði auðveldara að mynda nýjar hreyfingar. Helsta áhyggjuefnið er að ACT myndi ef til vill tengja okkur við kirkjuna á hátt sem útilokaði þáttöku hreyfinga í múslimalöndum. Engin ákvörðun var tekin í þessu máli en í tengslum við þetta töluðu Norðmennirnir um annað verkefni sem þá langar að koma af stað. Það heitir “Pilot project” og felst í því að Changemaker hreyfingarnar myndu, í sameiningu við hjálpastarfshreyfingarnar, reyna að koma á fót fleiri Changemaker hreyfingum í Afríku. Þetta var samþykkt og verður stefnt að því að koma verkefninu á laggirnar á komandi ári.

Alþjóðasamstarfið á milli hreyfinganna var tekið til umræðu og varpað var fram spurningu um nauðsyn þess, kostnað og vinnu sem fer í samstarfið og hvort að hreyfingarnar séu yfir höfuð að græða á samstarfinu. Umræðurnar snérust þá algerlega á haus og töldu allar hreyfingarnar að alþjóðasamstarfið styrki þeirra hreyfingu og vildu aukið samstarf á milli hreyfinga. Það var því samþykkt að bæta við aukafundi sem verður haldinn á netinu þar sem að hægt verður að taka fyrir mál eins og umsóknir nýrra hreyfinga, reglugerðir, herferðir og annað tilfallandi. Hreyfingarnar munu reyna að vinna meira saman á þessu ári og verður COP ráðstefnan fyrsta skrefið í áttina, en allar hreyfingarnar munu reyna að hafa viðburð í sínu landi eða í Varsjá á meðan á fundinum stendur.

Nýir félagar?

Þær Redempta Williams, Allyah Mohammad og Aaliyah Harajuku Khatib frá Tanzaníu slógust í hópinn á alþjóðafundinum sem gestir. Þær eru hluti af hreyfingunni Youth Can sem er ungmenna hreyfing í Tanzaníu sem er að velta fyrir sér að gerast hluti af Changemaker fjölskyldunni. Vonandi fáum við fulltrúa frá Tanzaníu í heimsókn á næsta ári þegar alþjóðafundurinn verður haldinn á ÍSLANDI.

1 Comment

  1. þorsteinn

    Góð ferðasaga, hefði ekki verið leiðinlegt að vera með…
    En já, það þarf að fara að skipuleggja næsta alþjóðafund ekki seinna en á morgun :)

Segðu þína skoðun