Bjuggu börn til páskaeggin þín?

Skrifað þann 31 Mar, 2013

Bjuggu börn til páskaeggin þín?

Páskarnir eru skemmtilegur tími uppfullur af vorblómum, dúnmjúkum páskaungum og síðast en ekki síst; páskaeggjum. Allir megrunrkúrar og nammibindindi eru fljótt gleymd þegar raðir af dýrlegum súkkulaðipáskaeggjum frá Nóa Síríus, Góu, Freyju og Sambó skreyta hillurnar. Nú þegar páskarnir nálgast óðfluga með sína árlegu súkkulaðiveislu er vert að leiða hugann aðeins að því hvaðan allt þetta súkkulaði kemur. Yfir fimmtíu prósent af öllum kakóbaunaframleiðslu heimsins kemur frá Fílabeinsströndinni og Ghana, nágrannaríkjum í vestur Afríku. Í báðum þessum löndum lifir þrælahald enn góðu lífi og mannréttindabrot eru algeng. Það eru nefninlega ekki allir sem jafn heppnir og við. Margir framleiðendur kakóbauna hafa ekki efni á mat, vatni, fötum, nauðsynlegri heilsugæslu eða jafnvel efni á að fjármagna næstu uppskeru.

Í þessu máli bera fyrirtæki mikla ábyrgð en það eru þau sem velja að fjármagna stafsemi þrælahaldaranna með því að kaupa kakóbaunir af þeim frekar en af framleiðandanum sem borgaði starfsmönnum sínum mannsæmandi laun. Fairtrade vottunin er ein leið til að tryggja framleiðandanum sanngjörn laun. Fairtrade er siðgæðisvottun sem tryggir sanngirni við framleiðslu og vinnslu á vörunni. Vottunin tryggir að lágmarksverð vörunnar fari aldrei niður fyrir það sem þarf til að framleiða vöruna á sjálfbæran hátt. Þannig er hægt að tryggja foreldrunum laun sem hægt er að lifa á og þar með hlífa börnum þeirra við barnaþrælkun og harðræði. Fairtrade snýst ekki um þróunaraðstoð heldur að innleiða sanngjarna viðskiptasamninga í stað hinna ósanngjörnu viðskipta sem nú viðgangast

Enn sem komið er eru þó engin íslensk páskaegg sem bera slíka vottun. 
Þrátt fyrir það telja Breytendur ekki þörf á því að leggja niður páskahald, hætta að kaupa páskaegg og henda þeim sem hafa ekki verið borðuð. Við viljum hinsvegar geta keypt páskaegg á komandi árum sem ekki hafa verið unnin af börnum eða þrælum heldur frjálsu fólki sem fær laun fyrir vinnu sína. Við viljum biðja íslensku sælgætisgerðirnar um að sýna ábyrgð í viðskiptum sínum og neytendur um að vera gagnrýna, skoða hvaða innkaupa- og samfélagsstefnu fyrirtæki hafa þegar þeir eiga þess kost og krefja fyrirtæki sem versla við óábyrga birgja og hafa lélega eða jafnvel enga samfélagsstefnu um umbætur.

Ólöf Rún Benediktsdóttir og Hafþór Freyr Líndal

Deila þessu

2 Comments

  1. Þorsteinn Valdimarsson

    Flott grein, fínt að minna á Fairtrade vottunina í þessu samhengi.
    Finnst einnig tilvalið að þakka “Stop the Traffik”, fyrir að vekja upp þessa umræðu, þeirra síðu má finna hér: https://www.facebook.com/pages/Stop-the-Traffik-ACT-Iceland

Segðu þína skoðun